Manchester United og Chelsea unnu sína leiki

Wayne Rooney hjá Manchester United skýtur að marki Charlton í …
Wayne Rooney hjá Manchester United skýtur að marki Charlton í leiknum í dag. Reuters

Efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, Manchester United og Chelsea, unnu leik sína í dag. Manchester United lagði Charlton, 2:0, og Chelsea vann Middlesbrough, 3:0. Þá vann Newcastle sigur á Liverpool, 2:1, en West Ham tapaði heima fyrir Watford í fallslag, 0:1. Manchester United er áfram með sex stiga forskot, er með 66 stig, Chelsea 60 og Liverpool er í þriðja sætinu með 50 stig.

Staða West Ham við botninn versnar stöðugt. Wigan er með 25 stig, West Ham og Charlton 20 og Watford 18 stig.

Park Ji-sung kom Manchester United yfir á 24. mínútu og Darren Fletcher innsiglaði sigurinn með marki á 83. mínútu. Hermann Hreiðarsson lék ekki með Charlton vegna meiðsla. Rúrik Gíslason var 17. maður hjá Charlton í leiknum gegn Manchester United en var ekki á meðal fimm varamanna liðsins.

Didier Drogba kom Chelsea yfir gegn Middlesbrough á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Abel Xavier sendi boltann í eigið mark á 66. mínútu og Drogba skoraði aftur, 3:0, á 83. mínútu.

Craig Bellamy kom Liverpool yfir gegn Newcastle á sínum gamla heimavelli strax á 6. mínútu. Obafemi Martins jafnaði fyrir Newcastle á 25. mínútu og Nolberto Solano skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 70. mínútu.

Darius Henderson skoraði sigurmark Watford gegn West Ham á Upton Park, 1:0, úr vítaspyrnu strax á 12. mínútu en Anton Ferdinand braut þá klaufalega af sér. West Ham fékk gullið færi til að jafna á 60. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Watford. Marlon Harewood tók hana en skaut framhjá markinu.

Everton sigraði Blackburn, 1:0, með marki frá Andy Johnson á 10. mínútu.

Sheffield United komst í betri fjarlægð frá fallsætunum með því að sigra Tottenham, 2:1. Jermaine Jenas kom Tottenham yfir á 2. mínútu, Rob Hulse jafnaði á 27. mínútu og Phil Jagielka kom Sheffield United í 2:1 úr vítaspyrnu á 63. mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka