Arsenal komið yfir gegn Wigan

Denny Landzaat fagnar markinu sem hann skoraði fyrir Wigan í …
Denny Landzaat fagnar markinu sem hann skoraði fyrir Wigan í fyrri hálfleiknum. Reuters

Arsenal komst aftur í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir skamma fjarveru með því að sigra Wigan, 2:1, á heimavelli sínum, Emirates-leikvanginum, í dag. Arsenal er þá komið með 49 stig og er einu stigi á eftir Liverpool sem er í þriðja sætinu en Arsenal á leik til góða. Wigan er sem fyrr í fjórða neðsta sæti, fimm stigum á undan West Ham og Charlton.

Denny Landzaat kom Wigan óvænt yfir á 35. mínútu leiksins með miklum þrumufleyg af 25 metra færi. Skömmu síðar var Wigan rétt komið tveimur mörkum yfir þegar Emile Heskey átti skot í innanverða stöngina. Staðan var 0:1 allt þar til á 80. mínútu þegar Arsenal jafnaði með umdeildu marki. Mathieu Flamini fékk boltann innfyrir vörn Wigan hægra megin, var rangstæður samkvæmt sjónvarpsmyndum, en sendi fyrir markið þar sem Fitz Hall varð fyrir því óláni að spyrna boltanum í eigið mark.

Tomas Rosicky skoraði svo sigurmarkið á 85. mínútu þegar hann skallaði boltann glæsilega í mark Wigan eftir sendingu frá Julio Baptista.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert