Henry: Var bara að stríða Kirkland

Thierry Henry afhendir Chris Kirkland boltann. Kirkland var ekki sáttur …
Thierry Henry afhendir Chris Kirkland boltann. Kirkland var ekki sáttur við framkomuna og dómarinn sýndi Henry gula spjaldið. Kirkland og Henry skildu þó sáttir í leikslok. Reuters

Thierry Henry fyrirliði Arsenal fékk gula spjaldið fyrir óprúðmannlega framkomu eftir að lið hans hafði jafnað metin gegn Wigan í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Henry sótti þá boltann í markið og afhenti Chris Kirkland, markverði Wigan hann en Kirkland var ekki ánægður með þau tilþrif og sendi honum tóninn. Henry segir að hann hafi bara verið að stríða markverðinum vegna endalausra tafa hans í leiknum.

Wigan var yfir lengi vel, 1:0, en Arsenal náði að jafna með sjálfsmarki tíu mínútum fyrir leikslok og knúði síðan fram sigur, 2:1. „Kirkland byrjaði að tefja leikinn strax á fyrstu mínútu og mestöll mín hlaup í leiknum fóru í að koma boltanum til hans. Þegar við skoruðum spurði ég hann hvort hann vildi ekki tefja aðeins meira. Þetta var bara grín hjá mér en hann var búinn að vera dálítið pirrandi," sagði Henry.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal tók undir með sínum manni. „Thierry var æstur en mér fannst þetta rétt af honum. Fólk greiðir ekki aðgangseyri til að horfa á leikmenn tefja leiki, þau vilja sjá leikinn ganga. Vissulega hefði hann mátt sleppa þessu en þetta er nú ekki grófasta móðgun sem ég hef séð í fótboltanum. Tafirnar voru byrjaðar í fyrri hálfleik og markmaðurinn gekk ítrekað þvert yfir teiginn til að taka markspyrnurnar," sagði Wenger.

Reuters
Reuters
Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert