Leicester hefur boðað til blaðamannafundar í hádeginu á morgun og þar er búist við því að kynntur verður til sögunnar nýr eigandi félagsins. Sá er Milan Mandaric fyrrum eigandi Portsmouth. Mandaric bauð 25 milljónir punda, 3,3 milljarða króna í félagið sem er í 17. sæti 1. deildarinnar og er aðeins fimm stigum frá fallsæti.
Mandaric seldi Portsmouth til Alexandre Gaydamak í fyrra en þessi 68 ára gamli bandaríski kaupsýslumaður sem fæddur er í Serbíu ætlar að koma Leicester í fremstu röð á nýjan leik. Breskir fjölmiðlar hafa ýjað að því að Mandaric ætli að losa sig við knattspyrnustjórann Rob Kelly og ráði í hans stað Iain Dowie sem rekinn var frá Charlton í nóvember.