Chris Kirkland frá í sex vikur

Chris Kirkland verður ekki með Wigan í næstu leikjum.
Chris Kirkland verður ekki með Wigan í næstu leikjum. Reuters

Wigan, sem berst fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur orðið fyrir miklu áfalli því markvörðurinn Chris Kirkland verður frá keppni næstu vikurnar. Hann meiddist á fingri á æfingu og þarf að gangast undir aðgerð. Kirkland hefur verið einn besti markvörður úrvalsdeildarinnar í vetur og er einn af landsliðsmarkvörðum Englands.

Sjúkraþjálfari Wigan segir að það sé ekki ljóst hversu lengi Kirkland verði að jafna sig en gera megi ráð fyrir allt að sex vikum. Þrír aðrir lykilmenn Wigan eru frá keppni um þessar mundir vegna meiðsla, þeir Henri Camara, Paul Scharner og Arjan De Zeeuw, og liðið má illa við þessu því breiddin er ekki mikil. Wigan er í 17. sæti úrvalsdeildarinnar með 25 stig en fyrir neðan eru West Ham og Charlton með 20 stig og Watford með 18 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert