Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, segir að David Beckham eigi möguleika á að komast aftur í lið sitt, svo framarlega sem hann gefi það ekki út sjálfur að hann sé hættur að leika með landsliðinu. Sama sé að segja um fleiri reynda menn sem ekki hafi verið í náðinni síðan McClaren tók við, eins og David James og Sol Campbell.
McClaren hefur verið mikið gagnrýndur í vetur, fyrir frammistöðu enska liðsins í undankeppni EM og svo tapið gegn Spánverjum, 0:1, á Old Trafford í síðustu viku. Háværar raddir hafa verið um að hann ætti að velja Beckham í liðið, auk þess sem þeir James og Campbell hafa leikið afar vel með Portsmouth í vetur. Enginn þeirra hefur verið í liðinu síðan McClaren tók við því síðasta sumar.
„Að sjálfsögðu er Beckham áfram inni í myndinni og sama er að segja um James og Campbell. Ég sá þá tvo spila frábærlega með Portsmouth gegn Manchester United. Svo framarlega sem þeir gefa kost á sér í landsleiki, eiga allir möguleika. Ég útiloka engan frá landsliðinu, leikmenn útiloka sig sjálfir, og það hafa þeir ekki gert, ekki heldur David Beckham," sagði McClaren.