Eggert Magnússon stjórnarformaður West Ham gagnrýnir Alan Pardew fyrrum knattspyrnustjóra félagsins í viðtali við breska blaðið News of the World í dag en Eggert lét Pardew taka poka sinn og réð Alan Curbishley í staðinn. Pardew tók við liði Charlton en West Ham og Charlton mætast í sannkölluðum fallbaráttuslag um næstu helgi.
Eggert segir að hann hafi skynjað það fljótlega eftir að hann tók við völdum hjá félaginu að ekki var allt með felldu inn í búningsklefanum.
„Það hafði greinilega skapast mikil spenna á milli leikmanna og knattspyrnustjórans en það var ekki tímabært að ræða þessa hluti opinberlega,“ segir Eggert við blaðið.