Eggert Magnússon stjórnarformaður West Ham segir í samtali við fréttavef Sky að Alan Curbishley, knattspyrnustjóri félagsins, njóti fulls stuðnings hjá sér en einhverjar fregnir hafa borist af því að Eggert sé að missa þolinmæðina gagnvart Curbishley og hafi gefið honum tímamörk sem nær yfir þrjá næstu leiki liðsins.
Curbishley hóf feril sinn hjá West Ham með sigri á Manchester United í desember en síðan hefur liðinu ekki tekist að vinna leik og situr í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með 20 stig, jafnmörg og Charlton sem í næst neðsta sæti en liðin mætast í sannköllum fallslag á The Valley, heimavelli Charlton, á laugardaginn.
,,Svo hlutirnir séu á hreinu þá nýtur Alan 100% stuðnings frá mér," segir Eggert Magnússon. ,,Hann hefur haft fullan stuðning frá fyrsta degi og það verður áfram. Hann er rétti maðurinn í starfið og honum tekst að koma okkur í gegnum þessa erfiðleika. Allt tal um þriggja leikja tímamörk er algjör vitleysa. Ég vona að Alan verði hjá okkur í langan tíma," segir Eggert við Sky og segir að samskipti sín við Curbishley hafi verið afar góð og hafi styrkst þegar þeir unnu saman við að styrkja leikmannahópinn í janúar.