Liverpool vann öruggan sigur á Sheffield United, 4:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í dag. Robbie Fowler skoraði tvívegis úr vítaspyrnum í fyrri hálfleik, á 20. og 24. mínútu, Sami Hyypiä gerði þriðja markið á 70. mínútu og Steven Gerrard það fjórða á 73. mínútu.
Báðar vítaspyrnurnar voru dæmdar eftir að brotið var á Gerrard. Liverpool er þá með 53 stig í þriðja sæti deildarinnar og er sjö stigum á eftir Chelsea.
Reading mátti sætta sig við sinn fyrsta ósigur á þessu ári þegar liðið tapaði fyrir Middlesbrough á útivelli, 2:1. Mark Viduka skoraði fyrir Middlesbrough á 10. mínútu og lagði upp mark fyrir Ayiegbeni Yakubu á 69. mínútu. John Oster minnkaði muninn fyrir Reading á 87. mínútu. Ívar Ingimarsson lék að vanda allan leikinn með Reading en Brynjar Björn Gunnarsson var varamaður og kom ekki við sögu.