Riise: Vona að Bellamy verði áfram

Craig Bellamy og John Arne Riise fagna eftir sigurinn í …
Craig Bellamy og John Arne Riise fagna eftir sigurinn í Barcelona. Reuters

John Arne Riise, norski knattspyrnumaðurinn hjá Liverpool, vonast eftir því að Craig Bellamy verði áfram hjá félaginu. Mikið hefur verið rætt um að hann verði látinn fara í sumar vegna atviksins sem gerðist í æfingabúðum liðsins í Portúgal í síðustu viku en þá er Bellamy sagður hafa ráðist á Riise með golfkylfu.

Þeir Riise og Bellamy léku síðan aðalhlutverkin í hinum frækna útisigri Liverpool á Barcelona í Meistaradeild Evrópu á miðvikdagskvöldið, skoruðu sitt markið hvor og Bellamy lagði upp sigurmarkið fyrir Riise. Enskir fjölmiðlar hafa greint frá háum fjársektum sem félagið á að hafa beitt þá en báðir hafa þeir sagt á síðustu dögum að ekkert hafi verið rætt við þá og engum sektum verið útdeilt.

„Craig er frábær leikmaður og við viljum allir hafa frábæra leikmenn í okkar félagi. Hann vinnur alltaf geysilega vel fyrir liðið. Það er ekki mitt að ákveða hver framtíð Craigs er hjá Liverpool. Mitt starf er fólgið í því að einbeita mér að því hvað ég geri fyrir liðið. En ég vil endilega að hann verði hér áfram. Það voru forlögin sem réðu því að við skyldum skora sitt markið hvor í þessum leik. Báðir áttum við erfiða viku eftir Portúgalsferðina en vorum nógu sterkir til að ýta öllum vandamálum til hliðar.

Við Craig erum báðir fullorðnir menn og hluti af liðsheild. Við ræddum það sem gerðist en aðalmálið er að það er úr sögunni og við erum sáttir. Það var frábært að skora gegn Barcelona en við gerðum það fyrir liðið, ekki fyrir okkur sjálfa. Það er mikill liðsandi í hópnum. Við vissum að allir myndu afskrifa okkur eftir það sem gerðist í Portúgal en þetta snerist ekki um John Arne Riise og Craig Bellamy. Þetta var sigur Liverpool," sagði Riise í samtali við dagblaðið News of the World í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka