Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hyggst hvíla nokkrar af eldri leikmönnum liðsins í bikarleiknum gegn Reading sem fram fer á Madejski Stadium, heimavelli Reading annað kvöld.
Ryan Giggs, Paul Scholes, Edwin van der Sar og Henrik Larsson koma líklega ekki til með að spila gegn Reading og þá þykir nær öruggt að serbneski varnarmaðurinn Nemanja Vadic spili ekki en hann gat ekki æft í dag vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Fulham á laugardaginn.
Alan Smith verður að öllum líkindum í leikmannahópi Manchester-liðsins í fyrsta skipti í langan tíma en hann hefur verið að safna kröftum eftir ljótt fótbrot í leik gegn Liverpool á síðustu leiktíð.
Steve Coppell, stjóri Reading, hefur til þessa teflt fram blönduðu liði í bikarkeppninni og ekki er talið að hann breyti út af venjunni á morgun. Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson verða að öllum líkindum saman í vörninni líkt og í leiknum á Old Trafford fyrir 9 dögum þegar liðin skildu jöfn, 1:1, þar sem Brynjar Björn jafnaði með glæsilegu skallamarki.