John Terry, fyrirliði Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu, segist ekki muna eftir neinu frá því hann gekk út á völlinn til síðari hálfleiks í úrslitaleik deildabikarsins, og þar til hann vaknaði í sjúkrabílnum á leið á sjúkrahús í Cardiff. Terry rotaðist í úrslitaleiknum gegn Arsenal í gær, þegar hann freistaði þess að kasta sér fram og skalla að marki en fékk þá spark í andlitið.
Terry missti meðvitund og hætti að anda í smátíma þar sem tungan stíflaði öndunarveginn. Sjúkraþjálfari Arsenal var eldsnöggur til og kom öndun fyrirliðans í lag á ný.
Terry var mættur aftur á völlinn 45 mínútum eftir leik til að fagna bikarsigrinum með félögum sínum, eftir að í ljós kom að hann varð ekki fyrir alvarlegum meiðslum. „Ég man ekkert frá því ég fór út á völlinn í seinni hálfleik. Ég fór í myndatöku og þar sást að ég var í lagi. Það var frábært að komast aftur til strákanna en ég þó dálítið rykaður ennþá, sagði Terry við fréttamenn síðar um kvöldið.