Mourinho ánægður með læknalið Arsenal

José Mourinho fylgist með þegar John Terry er borinn af …
José Mourinho fylgist með þegar John Terry er borinn af velli í úrslitaleiknum í gær. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, þakkaði lækni og sjúkraþjálfara Arsenal fyrir frábær viðbrögð í úrslitaleik enska deildabikarsins í gær, þegar fyrirliði Chelsea, John Terry, rotaðist og var fluttur á sjúkrahús. Mourinho sagði að atvikið væri á engan hátt leikmanni Arsenal, Abou Diaby, að kenna en hann sparkaði í andlit Terrys.

Terry var borinn af velli eftir að hlúð hafði verið að honum þar í sex mínútur og síðan fluttur á sjúkrahús. Hann var fljótur að braggast, var kominn aftur á leikvanginn 45 mínútum eftir að leiknum lauk og gat tekið þátt í fagnaðarlátum sinna manna og farið heim til London með liðsrútu Chelsea.

„Læknalið Arsenal var skammt undan þegar atvikið gerðist og þeir voru fljótir á staðinn, þannig að Terry var strax í öruggum höndum. Ég var við hlið fjórða dómarans, sem var í beinu sambandi við dómarann, fékk allar upplýsingar strax frá honum svo ég vissi allt jafnóðum. Aðalmálið var hvort allt væri í lagi með manninn. Konan hans og börnin voru hérna á vellinum og þetta snerist allt um að hann væri í öruggum höndum og það væri í lagi með hann. Við höfum lent í slæmum óhöppum ívetur með Petr Cech og Carlo Cudicini svo ég bjóst við hinu versta fyrst í stað.

En það var mjög eðlilegt fyrir leikmann Arsenal að reyna að sparka boltanum í burtu, fimm metrum frá eigin marki. Varnarmaður verður að gera það. John tók áhættu með því að reyna að skalla og Arsenal-maðurinn var að verjast. Ég hef ekkert út á það að setja," sagði José Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert