Ferguson: Reading er lið ársins

Steve Coppell segir sínum mönnum til í leiknum á Old …
Steve Coppell segir sínum mönnum til í leiknum á Old Trafford. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hlóð lofi á lið Reading og kollega sinn þar, Steve Coppell, þegar hann var spurður af fréttamönnum um bikarslaginn á Madejski-leikvanginum í kvöld. Reading tekur þar á móti Manchester United að nýju en liðin gerðu jafntefli, 1:1, á Old Trafford þar sem Brynjar Björn Gunnarsson skoraði glæsilegt mark fyrir Reading.

„Ég á von á mjög erfiðum leik því Reading er lið ársins á þessu tímabili, enn sem komið er. Reading og knattspyrnustjórinn Steve Coppell hafa staðið sig stórkostlega og Coppell hlýtur að koma sterklega til greina sem knattspyrnustjóri ársins. Reading mun spila eins og á Old Trafford en ég bíð spenntur eftir að sjá hvort þeir ætli að vera með einn eða tvo framherja," sagði Ferguson, sem brá út af vananum og fór ekki með lið sitt til Reading í gær, heldur lætur sér nægja fara suður á bóginn á leikdegi að þessu sinni.

Liðin hafa mæst í þremur hörkuleikjum á þessu tímabili. Þau gerðu jafntefli, 1:1, í úrvalsdeildinni á Madejski-leikvanginum, United vann síðan sinn heimaleik á Old Trafford, 3:2, og síðan kom bikarleikurinn þar sem Reading náði jöfnu, 1:1, þrátt fyrir að Coppell hvíldi megnið af sínum fastamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert