José Mourinho, hinn portúgalski knattspyrnustjóri Englandsmeistara Chelsea, hefur sent helstu keppinautum sínum, Arsenal og Manchester United, tóninn. Hann segir að Arsenal sé með efnilegt lið en vinni aldrei neitt og Manchester United hafi flotið á heppni í vetur.
Mourinho hrósaði hinu unga liði Arsenal sem veitti Chelsea harða keppni í úrslitaleiknum um deildabikarinn á sunnudaginn. „Arsenal er með frábæra stráka en mér þætti það ekki slæmt ef forráðamenn félags segðu við mig að ég fengi þrjú, fjögur eða fimm ár til að byggja upp lið með þeim orðum að ég þyrfti ekki að vinna neitt, og mætti tapa baráttu um meistaratitilinn ár eftir ár. Eftir að ég kom til Chelsea hefur Arsenal ekki unnið neitt, þeir hafa tapað af meistaratitlinum, töpuðu fyrir okkur í keppninni um góðgerðaskjöldinn og úrslitaleiknum um deildabikarinn. Þetta er ekki sigursælt lið. Hreint stórkostlegir strákar, frábær knattspyrnustjóri og lið sem á mikla framtíð fyrir sér. En þeir unnu ekki," sagði Mourinho um Arsenal.
Síðan sneri hann sér að Manchester United, sem nú hefur níu stiga forskot á Chelsea í baráttunni um meistaratitilinn. „United hefur sloppið algjörlega við meiðsli í vetur og hver einast leikmaður er í góðu standi. Í Meistaradeildinni er mark dæmt af mótherjunum og þeir skora sjálfir umdeilt mark. Þeir fara til Fulham og virðast verðskulda tap en vinna samt. Þeir spila við Tottenham og í stöðunni 0:0 lætur Ronaldo sig detta, þeir fá víti og vinna 4:0. Það er eins og allt falli með þeim, en svona er fótboltinn," sagði José Mourinho.