Robbie Fowler, sóknarmaðurinn gamalkunni hjá Liverpool, íhugar að yfirgefa England að þessu keppnistímabili loknu, halda vestur yfir Atlantsála og ganga til liðs við bandaríska félagið New England Revolution. Þjálfari liðsins er Steve Nicol, fyrrum samherji Fowlers hjá Liverpool, og hann hefur staðfest að hann hafi rætt við Fowler en málið sé skammt á veg komið.
„Það er fyrst verið að kanna peningahliðina. Við höfum rætt saman en það hefur engin ákvörðun verið tekin. Hann er fyrst og fremst að kanna aðstæður hérna og er að íhuga hvað hann eigi að gera. Það á eftir að koma í ljós hvort honum verði boðinn nýr samningur hjá Liverpool," sagði Nicol.
Liverpool hefur samið við úkraínska sóknarmanninn Andriy Voronin fyrir næsta tímabil og þar með virðast líkurnar á að Fowler, einn vinsælasti leikmaðurinn í sögu Liverpool, hverfi þaðan á braut í annað sinn á ferlinum í vor. Hann hefur sjö sinnum verið í byrjunarliði Liverpool í vetur og skorað sjö mörk, þrjú þeirra í úrvalsdeildinni.
Revolution hefur verið meðal bestu liða bandarísku MLS-deildarinnar tvö undanfarin ár og komst í bikarúrslitin bæði 2005 og 2006 en tapaði í bæði skiptin.