Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur tekið upp hanskann fyrir Emmanuel Adebayor sem var rekinn af velli í lok úrslitaleiks deildabikarsins gegn Chelsea á sunnudaginn og fær minnst þriggja leikja bann. Hann segir að það sé rangt að Adebayor hafi slegið einn leikmanna Chelsea og aðstoðardómarinn sem haldi því fram sé lygari.
„Við erum ekki sammála yfirlýsingu aðstoðardómarans, hann er að ljúga. Ég er viss um að Adebayor sló engan og þegar aðstoðardómarinn heldur því fram, fer hann með ósannindi. Það hafa hinsvegar sumir leikmenn komist upp með að slá mótherja. Skýrslan sem var gefin eftir leikinn er kolröng og full af lygum. Nú kemur aðstoðardómarinn fram og segir að Adebayor hafi slegið Lampard. Mér þætti athyglisvert að heyra frá Lampard, hvort Adebayor hafi slegið hann. Er það bara tilviljun að eftir að 20 leikmenn lenda í stimpingum að einungis leikmenn Arsenal eru hinir seku? Það er með ólíkindum en réttlætið er greinilega afstætt hjá þessum mönnum. Ég er algjörlega ósammála aganefndinni, sem hefur tekið mjög þröngsýna afstöðu. Það er einkennilegt, og algjörlega tilviljanakennt hverjir hafa verið ákærðir og það er mjög erfitt að sætta sig við það," sagði Wenger.
Áfrýjun Adebayors gegn þriggja leikja banni fyrir rauða spjaldið var hafnað og hann tók út fyrsta leikinn gegn Blackburn í bikarkeppninni í gærkvöld. Hann hefur ennfremur verið kallaður fyrir aganefndina þann 6. mars þar sem hann á að svara til saka fyrir mótþróann sem hann sýndi eftir að honum var vísað af velli.