Bellamy: Ég missti stjórn á mér

Craig Bellamy vildi ræða við John Arne Riise undir fjögur …
Craig Bellamy vildi ræða við John Arne Riise undir fjögur augu. Reuters

Craig Bellamy, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hefur útskýrt þátt sinn í uppákomunni frægu í æfingabúðum liðsins í Portúgal á dögunum þegar hann sló liðsfélaga sinn, John Arne Riise, með golfkylfu. Hann kveðst hafa misst stjórn á sér í nokkrar sekúndur.

„Þetta byrjaði allt þegar við vorum að syngja í karókí. Ég söng bara eitt lag, "Red, Red Wine" eftir UB40, og gerði það vegna þess að Jerzy Dudek var að drekka rauðvín. Margir stákanna vildu að Riise kæmi upp næstur á eftir mér vegna þess að hann hafði ekki borðað kvöldmat með okkur skömmu áður og ég reyndi líka að fá hann til að syngja.

Mér var nokkurn veginn sama um hvort hann vildi syngja eða ekki og settist því aftur í mitt sæti en hann var ekki ánægður með að ég skyldi reyna að fá hann til að syngja og lét mig heyra það. Það komst á ró á ný en þegar við Steve Finnan, herbergisfélagi minn, fórum heim á hótelið missti ég stjórn á mér í nokkrar sekúndur. Ég fór til Riise og sagði honum að tala ekki aftur við mig á þennan hátt frammi fyrir öðrum leikmönnum. Og það var í raun allt og sumt. Ég vildi ekki gera mál úr þessu frammi fyrir öllum hinum, ég ætlaði mér bara að ræða þetta við hann undir fjögur augu," sagði Bellamy í viðtali við Daily Mirror í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert