Ferguson: Mourinho ætti að halda sér saman

Alex Ferguson gefur sig hvergi í baráttunni við Chelsea, hvorki …
Alex Ferguson gefur sig hvergi í baráttunni við Chelsea, hvorki á vellinum né í fjölmiðlum. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að kollega sínum hjá Chelsea, José Mourinho, færi líklega best að halda sér saman í stað þess að vera að fjargviðrast yfir heppni Manchester United og hagstæðri dómgæslu í leikjum liðsins í vetur.

Manchester United sækir Liverpool heim í hádegisleik í úrvalsdeildinni á morgun og gæti þá náð 12 stiga forystu í deildinni. Chelsea leikur síðar um daginn við Portsmouth.

Fyrr í vikunni sagði Mourinho að heppnin hefði svo sannarlega verið á bandi United í vetur og grætt á vafasömum úrskurðum dómara, síðast í leikjunum við Tottenham og Lille.

„Allir knattspyrnustjórar virðast koma með sína útgáfu af þessum málum. Meira að segja Neil Warnock (hjá Sheffield United) lagði orð í belg í gær. Ég veit að José sagði ýmislegt í vikunni en við áttum von á því. Hann er síðasti maður sem ætti að tjá sig um dómara. Hans félag hefur blandast í svo mörg mál tengd dómurum á undanförnum árum. Það virðist vera að alltaf þegar á móti blæs hjá Chelsea eða þeir fá ekki að hafa hlutina eftir sínu höfði, þá ræðst einhver þeirra á dómara og kennir honum um. Þetta er ótrúlegt félag. Kannski það færi Mourinho best að halda sér saman," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert