Ole Gunnar Solskjær, norski sóknarmaðurinn hjá Manchester United, leikur ekkert með liðinu í þessum mánuði. Hann gekkst á dögunum undir minni háttar aðgerð á hné.
Solskjær sneri aftur í lið United í haust eftir að hafa verið nánast frá keppni í þrjú ár vegna alvarlegra meiðsla í hné. Ekkert því líkt er í gangi núna. „Aðgerðin var gerð fyrir nokkrum dögum og þetta var heppileg tímasetning þar sem stutt er í hlé vegna landsleikja. Þetta var tækifæri til að drífa þetta af og fá hnéð á honum í lag. Þetta var ekkert alvarlegt," sagði Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Solskjær, sem er 34 ára gmall, hefur skorað 10 mörk fyrir United á þessu keppnistímabili. Hann missir af leiknum við Liverpool á morgun, seinni leiknum við Lille í Meistaradeild Evrópu, leik við Middlesbrough í 8-liða úrslitum og deildaleik gegn Bolton en á góða möguleika á að spila á ný þegar United mætir Blackburn um næstu mánaðamót.
Darren Fletcher er líka frá keppni hjá United vegna meiðsla á ökkla. Hann verður ekki með á morgun og ekki gegn Lille.