José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að sínir menn eigi meira lof skilið fyrir frammistöðuna í vetur. Þrátt fyrir öll þau áföll sem dunið hafi á liðinu hafi það þegar unnið einn bikar á tímabilinu og sé með í baráttunni um þrjá í viðbót. Chelsea mætir Porto í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stamford Bridge annað kvöld en fyrri leikurinn í Portúgal endaði 1:1.
„Þetta lið á skilið að vinna meira og mitt markmið er að það nái í annan bikar á þessu tímabili. Sumir telja að við höfum ekki staðið okkur eins vel í vetur og undanfarin tvö ár vegna þess að við erum nú í öðru sæti úrvalsdeildarinnar en ég er á allt annarri skoðun," sagði Mourinho í dag en hann hefur verið án Joe Cole nánast allt tímabilið, Petr Cech var frá keppni í þrjá mánuði og John Terry í tvo mánuði.
„Ég er ekki að segja að það sé kraftaverk að við séum komnir svona langt, ég er ekki að segja að ég sé ofurmenni að hafa náð þessum árangri, en ég segi að leikmenn mínir eigi meira lof skilið en þeir hafa fengið," sagði Mourinho.