Steven Gerrard: Vill helst forðast ensku liðin

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool hampar Evrópumeistaratitlinum 2005.
Steven Gerrard fyrirliði Liverpool hampar Evrópumeistaratitlinum 2005. AP

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool segist ekki óttast neina andstæðinga en vill helst forðast að mæta Chelsea og Manchester United í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Dregið verður til 8-liða úrslitanna í Aþenu í dag og hefst drátturinn klukkan 11 að íslenskum tíma.

,,Á þessu stigi keppninnar þá held ég maður geti ekki átt sér einhverja óskamótherja. Öll liðin sem eru eftir í keppninni eru sterk en í hreinskilni sagt þá verð ég að segja að það yrði gott að losna við að mæta ensku liðunum. Það er ekki það að ég óttist þau frekar en önnur lið. Við eigum möguleika gegn þeim öllum," segir Gerrard á vef Liverpool en Gerrard hampaði Evrópubikarnum 2005 eftir magnaðan úrslitaleik gegn AC Milan.

,,Ég er bjartsýnn á að við getum farið alla leið. Ég held að við höfum sýnt það í leikjunum tveimur gegn Barcelona og mitt mat er að liðið í dag er sterkara en það lið sem varð meistari 2005," segir Gerrard.

Liðin átta sem verða í hattinum í Aþenu eru:

Liverpool
Chelsea
Man.Utd.
Valencia
AC Milan
Roma
Bayern München
PSV

Liðunum er ekki raðað í styrkleikaflokka og lið frá sama landi geta mæst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert