Southgate: Óttumst ekki Manchester United

Gareth Southgate stefnir ótrauður á sigur gegn Manchester United í …
Gareth Southgate stefnir ótrauður á sigur gegn Manchester United í dag. Reuters

Gareth Southgate, knattspyrnustjóri Middlesbrough, segir að sínir menn óttist ekki Manchester United þrátt fyrir mikinn styrk toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar. Liðin tvö mætast í fyrsta leik helgarinnar í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar sem hefst klukkan 17.30 á heimavelli Middlesbrough, Riverside.

„Þetta er stærsti leikur okkar á tímabilinu til þessa en við erum ekki smeykir við svona leiki. Við þurfum að sýna okkar bestu hliðar en við erum öllum erfiðir á okkar heimavelli. Ég sagði við mína menn að þó við værum kannski ekki með betra lið og ekki eins stórt félag, þá væri allt sem við þyrftum að vera betri en þeir í þessar 90 mínútur á þessum laugardegi," sagði Southgate.

„Þetta er mikilvægur dagur fyrir félagið. Ég er mjög ánægður með að við skulum spila fyrir fullum velli, við höfum unnið vel í því að fá fólk til að styðja við bakið á okkur og þetta sýnir að það hefur tekist. En við þurfum líka að sýna fólki góða knattspyrnu. Það er ekki til neins að fá það á völlinn ef við höfum ekkert fram að færa. Okkur hefur gengið vel í bikarnum og viljum komast enn lengra, við höfum notið þess að spila bikarleikina og ætlum okkur að hafa þá fleiri."

Middlesbrough hefur gengið vel gegn Manchester United á undanförnum árum og unnið fimm af síðustu tólf leikjum liðanna, m.a. 4:1 á heimavelli sínum í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert