Alan Cubishley knattspyrnustjóri West Ham viðurkenndi eftir sigurinn á Blackburn í kvöld að markið sem Bobby Zamora skoraði og réði úrslitum í leiknum hefði ekki átt að standa því boltinn hafi ekki verið kominn inn fyrir marklínuna.
,,Ég er búinn að sjá upptökuna. Boltinn fór ekki inn en við fengum markið og þannig er þetta bara. Það hafa dómar fallið á móti okkur og við höfum ekki haft mikla heppni með okkur á þessu tímabili. Það var nauðsynlegt fyrir okkur að ná þremur stigum í hús og með því að ná að innbyrða þrjú stig erum við enn á lifi. Við verðum að halda áfram á þessari braut. Það er eina sem dugar okkur," sagði Curbishley eftir leikinn.
West Ham fagnaði 2:1 sigri og skoraði Bobby Zamora sigurmarkið. Liðsmenn Blackburn mótmæltu markinu sem aðstoðardómarinn dæmdi gilt en sjónvarpsupptaka frá leiknum sannaði að boltinn fór ekki inn fyrir línuna þegar Zamora skaut að marki Blackburn.
,,Dómararnir fóru illa með okkur. Vítaspyrnan sem West Ham fékk var gjöf og aðstoðardómaranum urðu á mikil mistök þegar hann úrskurðaði að boltinn hefði farið inn fyrir línuna," sagði Mark Hughes knattspyrnustjóri Blackburn.