Áhorfandi á leik Tottenham og Chelsea í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld hljóp inn á völlinn í leikslok og reyndi að slá enska landsliðsmanninn Frank Lampard í liði Chelsea. Lampard sá hvað verða vildi og náði að beygja sig niður þannig að maðurinn sló vindhögg. Rui Faria, þrekþjálfari Chelsea, var fljótastur að bregðast við og skellti áhorfendanum sem síðan var leiddur á brott af öryggisvörðum.
„Það hafa allir verk að vinna, öryggisverðirnir eins og aðrir. Kannski slökuðu þeir örlítið á þegar búið var að flauta til leiksloka og það nægði spretthörðum náunga til að hlaupa að Lampard," sagði José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea við ITV eftir leikinn.
Hann sagði að stór áfangi væri að baki með sigrinum á Tottenham en í undanúrslitunum biði erfiður andstæðingur. Blackburn væri lið sem aldrei gæfist upp og hans menn bæru mikla virðingu fyrir því.