Frank Rijkaard þjálfari Spánarmeistara Barcelona er að sögn breska blaðsins Independent sá þjálfari sem Chelsea vill fá til að taka við af Jose Mourinho. Blaðið gerir því skóna að Roman Abramovich eigandi Chelsea hafi í hyggju að reka Mourinho úr starfi og það áður en leiktíðinni lýkur í vor.
Miklir samskiptaörðugleikar hafa verið á milli Abramovich og Mourinho á leiktíðinni og að sögn Independent vill rússneski milljarðarmæringurinn fá Rijkaard til að leysa Mourinho af hólmi og innleiða sóknarknattspyrnu hjá félaginu en Chelsea hefur ekki þótt leika skemmtilegustu knattspyrnu í heimi undir stjórn Mourinho.
Aðrir þjálfarar sem Chelsea er sagt vera með í sigtinu eru Juande Ramos þjálfari Sevilla, Roberto Manicini hjá Inter Mílanó, Guus Hiddink landsliðsþjálfari Rússa og Dider Deschamps þjálfari Juventus.