Mark Hughes knattspyrnustjóri Blackburn Rovers spáir því að Manchester United hafi betur í baráttunni við Chelsea um enska meistaratitilinn í vor. United hefur sex stiga forskot á Chelsea þegar átta umferðir eru eftir en Hughes mætir með lærisveina á Old Trafford á laugardaginn og etur kappi við Manchester United.
Hughes lék bæði með Manchester United og Chelsea á ferli sínum, 345 leiki með United og 95 fyrir Chelsea.
,,Ég held að United verði meistari en Chelsea á eftir að sauma vel að þeim á lokasprettinum. Hins vegar held ég að hungrið sé meira í herbúðum Manchester United og það mun skipta sköpum í þessari baráttu," segir Hughes.