Emmanuel Adebayor hefur afplánað fjögurra leikja bannið sem hann fékk eftir úrslitaleik deildabikarsins í lok febrúar. Hann getur því leikið með Arsenal gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun og Arsene Wenger knattspyrnustjóri segir að það sé mikill léttir að fá hann í liðið á nýjan leik.
Thierry Henry, Theo Walcott og Robin van Persie eru allir úr leik það sem eftir er tímabilsins vegna meiðsla og möguleikar Wengers hvað sóknarmenn varðar eru því ansi takmarkaðir.
„Þetta er okkur afar mikilvægt. Með alla þessa sóknarmenn fjarverandi er gott að fá hann aftur með sinn kraft og marksækni. Hann fékk þunga refsingu og það er léttir að hann sé búin að afplána hana," sagði Wenger við vefsjónvarp Arsenal.
Undanfarnar vikur hafa verið viðburðaríkar hjá Adebayor en auk þess að vera rekinn af velli í umræddum úrslitaleik var hann á dögunum rekinn úr landsliði Tógó fyrir framgöngu sína í deilum leikmanna liðsins við knattspyrnusamband landsins.