Leeds United vann í kvöld afar dýrmætan sigur í 1. deildinni þegar það lagði Preston, 2:1, á heimavelli sínum Elland Road. Það var n-írski landsliðsmaðurinn David Healy sem skoraði sigurmarkið á lokamínútunni en Healy hefur farið mikinn með liði N-Íra og skoraði bæði mörk þeirra í sigri á Svíum í vikunni.
Brett Ormerod kom gestunum yfir á 5. mínútu en Robert Blake jafnaði metin fyrir Leedsara í upphafi síðari hálfleiks. Þegar allt stefndi í jafntefli tókst Healy að skora sigurmarkið á 90. mínútu.
Leeds komst úr neðsta sætinu og situr í næst neðsta sæti, einu stigi frá öruggu sæti. Preston tapaði hins vegar dýmætum stigum í toppbaráttunni en liðið er í fjórða sætinu.
Gylfi Einarsson var ekki í leikmannahópi Leeds frekar en í síðustu leikjum.