Eggert telur að 38 stig nægi West Ham

Eggert Magnússon fylgist ákafur með sínum mönnum í West Ham.
Eggert Magnússon fylgist ákafur með sínum mönnum í West Ham. Reuters

Eggert Magnússon, stjórnarformaður enska knattspyrnuliðsins West Ham, sagði í viðtali við netútgáfu The Times sem var birt nú á tólfta tímanum að hann teldi að liði sínu myndi nægja tólf stig í viðbót og að fá 38 stig samtals til að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni. Hann sagði jafnframt að lið West Ham væri of gott til að falla.

Eftir tvo sigra í röð er West Ham komið með 26 stig og er fimm stigum á eftir Sheffield United, sem er næst fyrir ofan fallsætin. Liðið á erfitt prógramm framundan því það á eftir að spila við þrjú af fjórum efstu liðum deildarinnar og mætir Arsenal næsta laugardag.

„Ef við náum 38 stigum eða þar um bil, verðum við hólpnir. Það hefur augljóslega skort sjálfstraust í liðið en nú er það að koma aftur og leikmönnunum finnst að þeir geti sigrað hvaða andstæðingasem er, og þar með eru möguleikarnir góðir. Lið okkar er alltof gott til að falla. Það hefur alltof margt farið úrskeiðis, eins og í 6:0 tapinu gegn Reading í janúar, og í sumum leikjum hefur maður hreinlega ekki sklið hvað hefur verið í gangi. En ég þoli þetta vel. Ég er fljótur að skilja slæm úrslit við mig. Ég get snöggreiðst en er fljótur að jafna mig," sagði Eggert.

Eggert sagði jafnframt að það yrði engin stórútsala á leikmönnum þó svo illa færi að lið West Ham félli úr úrvalsdeildinni. „Við erum með of marga leikmenn í okkar röðum núna svo það yrði ekki vandamál þó einhverjir færu. Ef við föllum, höfum við nógu sterkan hóp til að komast beint upp aftur. Það er í höndum knattspyrnustjórans hverjir fara og hverjir verða. En það verður engin brunaútsala, við ætlum að halda eins sterkum hópi og mögulegt er, ef svona fer," sagði Eggert Magnússon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert