Portsmouth sigraði Manchester United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og þar með eykst spennan í baráttunni um meistaratitilinn til muna. Forskot United er þá aðeins þrjú stig, liðið er með 78 stig en Chelsea er með 75 stig eftir að hafa unnið Tottenham fyrr í dag.
Matthew Taylor kom Portsmouth yfir á 30. mínútu, fylgdi þá vel þegar Edwin van der Sar varði þrumuskot frá Benjani en hélt ekki boltanum. Staðan var 1:0 fram á lokamínúturnar en á 88. mínútu varð Rio Ferdinand fyrir því að senda boltann í eigið mark og staðan var orðin 2:0.
United svaraði strax fyrir sig, John O'Shea var þar að verki, 2:1, um leið og leiktíminn rann út. United hafði þá enn fjórar mínútur í uppbótartíma til að jafna metin en Portsmouth hélt fengnum hlut. Með naumindum þó, því þegar 20 sekúndur voru eftir varði David James glæsilega frá Alan Smith.