Manchester United tapaði fyrir Portsmouth

Paul Scholes og Nwankwo Kanu berjast um boltann í leiknum …
Paul Scholes og Nwankwo Kanu berjast um boltann í leiknum í dag. Reuters

Portsmouth sigraði Manchester United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og þar með eykst spennan í baráttunni um meistaratitilinn til muna. Forskot United er þá aðeins þrjú stig, liðið er með 78 stig en Chelsea er með 75 stig eftir að hafa unnið Tottenham fyrr í dag.

Matthew Taylor kom Portsmouth yfir á 30. mínútu, fylgdi þá vel þegar Edwin van der Sar varði þrumuskot frá Benjani en hélt ekki boltanum. Staðan var 1:0 fram á lokamínúturnar en á 88. mínútu varð Rio Ferdinand fyrir því að senda boltann í eigið mark og staðan var orðin 2:0.

United svaraði strax fyrir sig, John O'Shea var þar að verki, 2:1, um leið og leiktíminn rann út. United hafði þá enn fjórar mínútur í uppbótartíma til að jafna metin en Portsmouth hélt fengnum hlut. Með naumindum þó, því þegar 20 sekúndur voru eftir varði David James glæsilega frá Alan Smith.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert