Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði eftir ósigurinn gegn West Ham á heimavelli í dag, 0:1, að hann væri ekki enn farinn að trúa því að leikurinn hefði tapast. Lið sitt hefði fengið ótrúlegan fjölda opinna marktækifæra og það væri með ólíkindum að ekkert þeirra skyldi nýtast.
Mark sem Bobby Zamora skoraði í lok fyrri hálfleiks skildi liðin að og Arsenal mátti sætta sig við sinn fyrsta ósigur á Emirates-leikvanginum.
„Þetta er ótrúlegt. Við sköpuðum okkur í það minnsta tíu færi í dag, og þá meina ég ekki hálffæri, heldur dauðafæri. Þetta er óskiljanlegt, leikurinn var einstefna frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu en það var allt okkur í óhag að þessu sinni.
Eftir að við klúðruðum góðum færum snemma leiks varð alltaf meiri og meiri pressa á þeim sem komust í færi eftir það," sagði Wenger og vildi ekki segja til um hvort sigurmark West Ham hefði verið rangstöðumark. „Mér fannst það þaðan sem ég sat en ég hef ekki séð það aftur af myndbandi," sagði Wenger við Sky Sports.