West Ham vann í dag mjög óvæntan útisigur á Arsenal, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og varð þar með fyrsta liðið til að sigra Arsenal á Emirates-leikvanginum nýja. Bobby Zamora skoraði sigurmarkið á lokasekúndum fyrri hálfleiks og leikmenn West Ham vörðust þungri sókn Arsenal allan síðari hálfleikinn. West Ham hefur þá unnið þrjá leiki í röð og er komið með 29 stig, og er aðeins tveimur stigum frá því að komast úr fallsæti.
Fallbaráttan er nú orðin geysilega hörð. Manchester City er með 37 stig, Fulham 35, Wigan 33, Charlton 31, Sheffield United 31, West Ham 29 og Watford 20 stig.