Alan Pardew, knattspyrnustjóri Charlton Athletic, er mjög ánægður með frammistöðuna hjá Graham Poll dómara í leik liðsins gegn Reading í ensku úrvalsdeildinni í gær. Poll varaði Pardew við því að miðjumaðurinn Alexandre Song væri í mikilli hættu á að vera rekinn af velli og Pardew kippti því piltinum af velli í seinni hálfleiknum.
Pardew segir að Poll hafi sýnt frábær viðbrögð, sem séu til eftirbreytni fyrir dómara og fyllilega innan ramma laganna. „Ég sagði við Graham Poll eftir að Song hafði brotið af sér og fengið gula spjaldið að hann yrði að gefa mér merki ef hann væri kominn á tæpasta vað, væri t.d. einni slæmri tæklingu frá því að vera rekinn af velli. Ég fékk þetta merki frá Poll svo ég skipti Alex útaf. Ég vil hrósa Graham mjög fyrir þetta, svona á dómgæsla að vera. Enginn vill sjá menn rekna af velli og ég tel að hann hafi gert hárrétt. Ef samskiptin milli okkar og dómaranna væru meiri, myndu færri ljót brot sjást í fótboltanum," sagði Pardew.