Totti: Mitt dapurlegasta kvöld á ferlinum

Francesco Totti gengur niðurdreginn af Old Trafford í gærkvöld, við …
Francesco Totti gengur niðurdreginn af Old Trafford í gærkvöld, við hliðina á Wayne Rooney. Reuters

Francesco Totti, stjörnuleikmaður Roma og ítalska landsliðsins í knattspyrnu, sagði að gærkvöldið hefði verið hans versta á ferlinum. Roma fékk þá háðulega útreið gegn Manchester United, 7:1, í Meistaradeild Evrópu á Old Trafford en Totti og félagar höfðu mætt bjartsýnir til leiks í Manchester og töldu að þeir ættu alla möguleika á að verja 2:1 forskot sitt úr fyrri viðureign liðanna.

„Þetta er dapurlegsta kvöldið á mínum ferli, ég hef aldrei upplifað það áður að fá á mig sjö mörk í leik í Meistaradeildinni. Í hvert skipti sem þeir skutu á markið, lá boltinn í netinu. Við fengum á okkur þrjú mörk á níu mínútum og reyndum að bregðast við því en það var erfitt við þessar kringumstæður," sagði Totti við ítalska ríkissjónvarpið, og hrósaði jafnframt Cristiano Ronaldo, sem skoraði tvö marka United.

„Ég sagði fyrir leikinn að Ronaldo væri frábær leikmaður. Ég vonaðist til þess að við gætum haldið aftur af honum eins og í fyrri leiknum en hann var illviðráðanlegur. Vonandi fæ ég aftur tækifæri til að mæta United í leik eins og þessum, en þá yrðu úrslitin önnur. Ég vildi gjarna fá að bæta stuðningsmönnum okkar þetta upp," sagði Francesco Totti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert