Það eru fjögur ensk félög í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, ekki bara þrjú eins og sagt hefur verið til þessa. Manchester United, Chelsea og Liverpool eru komin áfram en fjórða félagið, AC Milan, er í rauninni enskt líka!
Það var nefnilega Englendingur, Alfred Edwards að nafni, sem stofnaði félagið í Mílanóborg á Ítalíu árið 1899 en hann var búsettur þar og var forseti félagsins fyrstu tíu árin, til 1909. Honum til heiðurs hefur félagið ávallt haldið hinu enska nafni sínu, Milan, sem er enska heitið á Mílanóborg. Reynar var félagið þvingað til að nota borgarnafnið ítalska, Milano, á tímum fasistastjórnarinnar á Ítalíu árin 1922 til 1943, en tók upp sitt upprunalega nafn á ný um leið og dagar hennar voru taldir.
AC Milan mætir Manchester United í undanúrslitunum og Liverpool mætir Chelsea. Það er allavega ljóst að verðandi Evrópumeistarar bera enskt nafn, sama hvernig fer!
AC Milan er ekki eina félagið á meginlandi Evrópu sem ber enskt nafn. Englendingar komu víða við í árdaga knattspyrnunnar og baskaliðið kunna á Spáni, Athletic Bilbao, ber enska heitið Athletic til minningar um enskan uppruna sinn. Það voru kolanámumenn frá Sunderland og hafnarverkamenn frá Southampton og Portsmouth, sem unnu í Bilbao, sem komu saman og stofnuðu Athletic árið 1898.