Berlusconi vill ná fram hefndum gegn Liverpool

Silvio Berlusconi óttast ekki Manchester United.
Silvio Berlusconi óttast ekki Manchester United. Reuters

Silvio Berlusconi, fjölmiðlamógúllinn, stjórnmálamaðurinn og eigandi ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, vill að sínir menn mæti Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor og komi þar með fram hefndum fyrir tapið gegn enska liðinu í úrslitaleik keppninnar í Istanbúl fyrir tveimur árum. Þá missti ítalska félagið niður þriggja marka forskot í síðari hálfleik og tapaði síðan fyrir Liverpool í vítaspyrnukeppni, í einum ótrúlegasta úrslitaleik í sögu keppninnar.

AC Milan mætir Manchester United í undanúrslitunum. „Ég er bjartsýnn eins og alltaf. Manchester er ekki sigurstranglegri aðilinn. Við berum mikla virðingu fyrir liðinu en óttumst það ekki því við erum ekkert síðri. Það gekk allt Manchester í haginn í leiknum við Roma, á meðan allt fór úrskeiðis hjá "Giallorossi". En 7:1 úrslitin skjóta okkur ekki skelk í bringu því Roma vann fyrri leik liðanna. Við eigum líka miklum skyldum að gegna við stuðningsmenn okkar - við viljum mæta Liverpool í úrslitaleik og kvitta fyrir ósigurinn fyrir tveimur árum. Það er okkar draumur og markmið," sagði hinn sjötugi Berlusconi við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert