Real Madrid neitar að hafa gert Rafael Benítez knattspyrnustjóra Liverpool tilboð um að taka við þjálfun liðsins á næstu leiktíð en Benítez greindi frá því í gær að hann hefði hafnað tilboði frá Madridarliðinu.
Real Madrid segir í yfirlýsingu á vef félagsins í dag að hjá félaginu starfi mikils metinn þjálfari, Fabio Capollo, sem á meira en tvö ár eftir að núgildandi samningi við félagið. Í yfirlýsingunni segir að engar viðræður hafi átt sér stað við Rafael Benítez né aðra þjálfara.
Benítez er ekki ókunnugur Real Madrid en hann lék með félaginu á sínum tíma og þjálfaði um skeið hjá því.
Spænskir fjölmiðlar hafa verið iðnir við að flytja fréttir af því að Real Madrid sé á höttunum eftir nýjum þjálfara, þeim sjöunda frá árinu 2003 en það ár vann liðið síðast stóran titil. Undir stjórn Capellos var Real Madrid slegið út af Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, það er fallið úr leik í bikarnum og er í þriðja sæti í spænsku úrvalsdeildinni, fimm stigum á eftir Barcelona sem trónir á toppnum.