Eggert Magnússon stjórnarformaður West Ham segist halda í þá von að liðið geti bjargað sér frá falli en viðurkennir í samtali við Sky Sports fréttastofuna að staða liðsins sé alvarleg. 4:1 tap West Ham gegn Englandsmeisturum Chelsea í fyrrakvöld var að margra mati enn einn naglinn í líkkistu Íslendingaliðsins en þegar liðið á fjóra leiki eftir er það fimm stigum frá öruggu sæti í úrvalsdeildinni.
Eftir góðan kipp hefur West Ham tapað tveimur leikjum í röð með þriggja marka mun og nái liðið ekki að sigra Everton á Upton Park á morgun má nánast bóka að liðið kveðji úrvalsdeildina í næsta mánuði.
,,Ég held enn í von um að við getum bjargað okkur. Ég er bjartsýnismaður en staðan er vissulega orðin alvarleg. Við lékum virkilega vel í fyrri hálfleiknum á móti Chelsea. Við hefðum þurft að spila allan leikinn af sama krafti þá hefðum við fengið hagstæð úrslit," sagði Eggert við Sky Sports.
Leikirnir sem West Ham á eftir eru: Everton (heima), Wigan (úti), Bolton (heima), Manchester United (úti).