Charlton og Sheffield United skildu jöfn, 1:1, í aðalleiknum í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Fallbaráttan harðnaði heldur betur með úrslitum dagsins, Watford féll reyndar í 1. deild, er með 24 stig, en West Ham er komið með 32 stig, Charlton er með 33, Sheffield United 35, Wigan 35 og Fulham 36 stig þegar þremur umferðum er ólokið.
Talal El Karkouri skoraði fyrir Charlton á 60. mínútu en Jon Stead jafnaði á 69. mínútu. Hermann Hreiðarsson kom inná sem varamaður hjá Charlton á 70. mínútu.
Fulham og Blackburn skildu jöfn, 1:1. Vincenzo Montella skoraði fyrir Fulham á 9. mínútu en Benni McCarthy jafnaði fyrir Blackburn á 60. mínútu. Heiðar Helguson var varamaður hjá Fulham og kom ekkert við sögu.
Reading vann magnaðan útisigur á Bolton, 3:1. Bolton komst yfir með sjálfsmarki Nicky Shorey á 64. mínútu. Kevin Doyle jafnaði á 84. mínútu, skoraði aftur þegar mínúta var eftir af leiktímanum og Stephen Hunt bætti við þriðja markinu áður en flautað var af. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru báðir í liði Reading og spiluðu allan tímann.
Watford og Manchester City skildu jöfn, 1:1. Darius Vassell skoraði á 53. mínútu fyrir City en Tamás Priskin jafnaði fyrir Watford á 75. mínútu. Watford þurfti að sigra til að eiga veika von um að halda sér í deildinni