Rio Ferdinand, miðvörður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, fór af velli vegna meiðsla í nára þegar lið hans gerði jafntefli, 1:1, við Middlesbrough í dag. Hann verður frá keppni næstu tvær vikurnar og missir því af fyrri leiknum gegn AC Milan í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu sem fram fer á þriðjudagskvöldið.
Vonir standa til að Ferdinand verði klár í slaginn þegar Manchester United mætir Chelsea á Stamford Bridge þann 9. maí en allt útlit er fyrir að sá leikur ráði úrslitum í einvígi liðanna um enska meistaratitilinn.