Tottenham og Arsenal, erkifjendurnir í Norður-London, skildu jafnir, 2:2, á White Hart Lane, heimavelli Tottenham, í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu dag. Arsenal er þá áfram í fjórða sæti með 63 stig en Tottenham lyfti sér upp í 7. sætið með 50 stig.
Robbie Keane skoraði fyrir Tottenham eftir hornspyrnu á 30. mínútu. Arsenal átti þrjú skot og skalla í markstangir Tottenham, Emmanuel Eboue, Kolo Toure og Emmanuel Adebayor, áður en Toure jafnaði metin eftir aukaspyrnu á 64. mínútu. Emmanuel Adebayor skoraði svo fyrir Arsenal, 2:1, á 78. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu.
Arsenal hafði mikla yfirburði í síðari hálfleiknum og þegar Adebayor kom Arsenal yfir var það 12. marktilraun Arsenal í hálfleiknum gegn engri hjá Tottenham.
En þegar fjórar mínútur voru komnar framyfir hefðbundinn leiktíma skoraði Jermaine Jenas jöfnunarmark Tottenham með glæsilegu skoti af 20 metra færi, 2:2.