Cristiano Ronaldo, Portúgalinn snjalli hjá Manchester United, var í kvöld útnefndur bæði knattspyrnumaður ársins í Englandi, sem og efnilegasti leikmaðurinn, í kjöri Samtaka atvinnuknattspyrnumanna. Þetta er í fyrsta skipti í 30 ár sem sami leikmaðurinn hreppir báða titlana en Andy Gray, sem þá lék með Aston Villa, sigraði tvöfalt í kjörinu árið 1977.
„Þetta er einstakt kvöld. Það er ótrúlegt, og mikill heiður fyrir mig að vinna titla sem þessa í ensku úrvalsdeildinni. Ég er geysilega stoltur. Félagar mínir hafa kosið mig, og það er frábært því það eru leikmennirnir sem þekkja best hæfileika kollega sinna," sagði Ronaldo þegar hann tók við viðurkenningunum.
„Ég ætla að leggja mjög hart að mér og verða betri því svona verðlaun eru ákaflega hvetjandi. Ég tel að ég hafi sýnt mikinn stöðugleika að undanförnu og sé betri og þroskaðri leikmaður en áður. Það hefur allt gengið að óskum í vetur og ég hef notið þess að spila. Ég er enn ungur og læri eitthvað nýtt á hverjum degi, og hef nægan tíma til að læra meira og verða betri. Ég reyni að bæta mig á öllum sviðum fótboltans, ekki bara á æfingum heldur líka í leikjum," sagði Ronaldo sem er 22 ára og fyrsti leikmaður Manchester United í fimm ár til að vera kjörinn sá besti í deildinni en Ruud van Nistelrooy var kosinn árið 2002.
Didier Drogba hjá Chelsea var annar í kjörinu á leikmanni ársins og Paul Scholes hjá Manchester United varð í þriðja sæti. Þeir Ryan Giggs frá Manchester United, Steven Gerrard frá Liverpool og Cesc Fabregas frá Arsenal voru einnig tilnefndir.
Fabregas varð annar í kjörinu á efnilegasta leikmanninum og Aaron Lennon hjá Tottenham þriðji. Þeir Wayne Rooney frá Manchester United, Kevin Doyle frá Reading og Micah Richards frá Manchester City voru einnig tilnefndir.