Sjö frá vegna meiðsla hjá Manchester United

Rio Ferdinand og Kieran Richardson meiddust báðir á laugardaginn og …
Rio Ferdinand og Kieran Richardson meiddust báðir á laugardaginn og eru frá keppni. Reuters

Manchester United verður án sjö leikmanna sem eru meiddir þegar liðið tekur á móti AC Milan í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á Old Trafford annað kvöld. Af Ítölunum er aðra sögu að segja en þar er einungis vafi um þátttöku eins leikmanns, brasilíska markvarðarins Dida sem glímir við axlarmeiðsli.

Fjórir varnarmenn eru úr leik hjá United, þeir Gary Neville, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic og Mikael Silvestre, en þessir fjórir hafa einmitt oft myndað varnarlínu liðsins. Það er sérstaklega mikið áfall fyrir liðið að vera án Ferdinands og Vidic sem hafa myndað eitt albesta miðvarðapar ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og voru báðir valdir lið ársins í deildinni í gær.

Aðeins fjórir varnarmenn í hópi United eru heilir heilsu, þeir Patrice Evra, Wes Brown, John O'Shea og Gabriel Heinze. Varnarmaður númer níu í hópnum, sem ekki hefur komið við sögu til þessa, Craig Cathcart, er líka frá vegna meiðsla og fær því ekki tækifæri eins og annars hefði verið.

Þá eru miðjumennirnir Park Ji-Sung og Kieran Richardson meiddir, sem og framherjinn Louis Saha.

„Nú þýðir ekkert að leggjast í eymd og volæði, nú þurfum við að sýna úr hverju við erum gerðir. Sagan segir okkur að í okkar félagi fara menn hvort eð er alltaf erfiðu leiðina. Við þurfum að endurhlaða batteríin hjá leikmönnum fyrir þriðjudagskvöld því þetta er stórleikur og leikur sem þeir eiga að njóta þess að spila," sagði Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert