Mourinho segir Ronaldo vera lygara

José Mourinho er samur við sig.
José Mourinho er samur við sig. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, kveðst efast um að landi sinn, hinn portúgalski Cristiano Ronaldo hjá Manchester United, standi undir því að vera kallaður besti knattspyrnumaður heims fyrst hann sé ekki tilbúinn til að viðurkenna að Manchester United hafi verið heppið hvað varðar vítaspyrnudóma að undanförnu.

Portúgalska sjónvarpið ræddi við þá báða og landa þeirra, Carlos Queiroz, aðstoðarstjóra Manchester United, vegna ummæla Mourinhos að undanförnu. Mourinho segir að mjög halli á Chelsea gagnvart Manchester United þegar kemur að vítaspyrnudómum í leikjum liðanna. Um síðustu helgi hafi t.d. Chelsea ekki fengið augljósa vítaspyrnu gegn Newcastle en ekki hafi verið dæmt augljós vítaspyrna á Manchester United í leik liðsins við Middlesbrough.

Ronaldo varð fyrstur til að svara og vildi greinilega ekki láta draga sig of mikið inní hnútukast við Mourinho. „Ég vil ekki flækjast inní kvartanir Mourinhos í garð dómara - það vita allir hvernig hann er. Við hugsum fyrst og fremst um leikinn í Mílanó. Við erum með góðan hóp og ég tel okkur á réttri leið." sagði Ronaldo.

„Ef hann segir að það sé lygi að Manchester United hafi sloppið við að fá á sig dæmdar nokkrar vítaspyrnur í vetur, þá lýgur hann. Ronaldo er frábær leikmaður, kannski sá besti í heimi. En hann verður að vera nægilega þroskaður til að viðurkenna að það er ekki hægt að deila um staðreyndir. Og sá sem lýgur kemst aldrei á þann stall sem hann á skilinn vegna getu sinnar á vellinum.

Queiroz vildi heldur ekki fara útí deilur við landa sinn. „Mourinho hefur sínar eigin aðferðir og reynir alltaf að beina athyglinni að því sem hentar honum sjálfum. Það eru hans aðferðir og þannig er hann," sagði Queiroz.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert