Carlos Tévez, argentínski sóknarmaðurinn hjá West Ham, segir að það sé útilokað að kenna sér og landa sínum, Javier Mascherano, um slæmt gengi West Ham á þessu keppnistímabili. Margir hafa viljað tengja ófarir West Ham framan af vetri við komu þeirra til félagsins í lok ágúst.
Tévez hefur leikið stærra og stærra hlutverk í liði West Ham eftir því sem liðið hefur á veturinn og er orðinn einn vinsælasti leikmaðurinn hjá stuðningsmönnum félagsins. Mascherano fékk hinsvegar fá tækifæri og var lánaður til Liverpool í janúar, þar sem honum hefur vegnað mun betur.
„Við áttum enga sök á þessum vandræðum, þau komu hvorki til vegna kaupanna á okkur eða frammistöðu okkar á vellinum. Javier er frábær leikmaður, um sjálfan mig dæmi ég ekki, en sökin er ekki okkar og þeir sem halda því fram hafa rangt fyrir sér. Ég ann þessu félagi og hefur lagt mig allan fram, sem leikmaður og sem einstaklingur, til að hjálpa West Ham í vetur," sagði Tévez við Daily Mirror í dag.
Hann kvaðst mjög vongóður um að West Ham næði að bjarga sér frá falli. „Kraftaverkið getur enn gerst. Við eigum þrjá leiki eftir og getum náð í níu stig. Ég hef lent í erfiðari stöðu en þetta í Argentínu og Brasilíu, enda þótt málin séu ansi snúin núna," sagði Tévez en lið hans fer til Wigan á morgun og verður þar að ná í öll þrjú stigin í sannkölluðum fallslag.
Þá hefst í dag málflutningur í ákærum á hendur West Ham fyrir að hafa staðið ólöglega að kaupunum á Argentínumönnunum tveimur. Ef dæmt verður West Ham í óhag gæti liðið verið svipt stigum í refsingarskyni.