Henry: Verð jafnlengi og Wenger hjá Arsenal

Thierry Henry segir að það skorti meiri reynslu í lið …
Thierry Henry segir að það skorti meiri reynslu í lið Arsenal. Reuters

Thierry Henry, fyrirliði Arsenal, segir að það sé afar einfalt að útskýra framtíð sína hjá félaginu. Hann verði jafnlengi hjá Arsenal og knattspyrnustjórinn Arsene Wenger. Henry skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið síðasta sumar eftir miklar vangaveltur um að hann væri á förum til Spánar.

„Ég hef mikla trú á stjóranum og því sem hann er að reyna að byggja upp hérna. Svo lengi sem hann verður hér, þá verð ég hér - það er einfalt mál," sagði Henry við tímaritið Sport.

Arsenal vinnur ekki til neinna verðlauna á þessu keppnistímabili og Henry telur að reynsluleysinu í liðinu sé um að kenna. „Ég held að við missum einbeitinguna af og til. Við gerum þetta ekki viljandi. Við höfum tapað fullt af stigum gegn liðum sem við hefðum átt að sigra. Hæfileikarnir eru fyrir hendi en það þarf að skora mörk og ég var ekki í nógu góðu standi, eða ekki nógu mikið með, til að skora eins mikið fyrir liðið í vetur og æskilegt hefði verið. Sama er að segja um Robin van Persie og William Gallas sem hafa verið lengi frá. Ég er ekki að afsaka neitt með þessu en þetta eru staðreyndir og skipta máli.

Við eigum fullt af ótrúlegum strákum í félaginu en það verður að vera reynsla til staðar. Við værum í mun betri stöðu ef við hefðum nýtt marktækifærin betur. Grunnurinn hjá okkur er góður og við getum byggt á honum, en við verðum að skora og vinna leikina. Það var okkar vandamál í vetur," sagði Henry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert