Nolan: Líklegt að Chelsea fái vítaspyrnu

José Mourinho er að leggja grunninn að því að Chelsea …
José Mourinho er að leggja grunninn að því að Chelsea fái vítaspyrnu á mikilvægu augnabliki, segir fyrirliði Bolton. Reuters

Kevin Nolan, fyrirliði Bolton Wanderers, segir að líkurnar á því að Chelsea fái dæmdar vítaspyrnur í næstu leikjum hafi aukist verulega eftir að José Mourinho knattspyrnustjóri félagsins gerði það að ítrekuðu umræðuefni að sitt lið færi mjög halloka hvað varðaði vítaspyrnudóma.

Mourinho hefur fullyrt að sitt lið hefði verið svikið um vítaspyrnur í hverjum leiknum á fætur öðrum á meðan Manchester United slyppi við að fá dæmdar á sig vítaspyrnur. Þessi ummæli hans hafa fallið í grýttan jarðveg víða og Portúgalanum hafa ekki verið vandaðar kveðjurnar.

Chelsea fær Bolton í heimsókn á morgun. „Eftir tvo síðustu leiki Chelsea hefur Mourinho sagt að lið sitt hefði átt að fá vítaspyrnur. Það er eins víst að þetta komi til með að hafa jákvæð áhrif fyrir hann. Með því að halda þessari umræðu í fréttunum og gefa í skyn að Chelsea sé beitt óréttlæti, gæti Mourinho með þessu lagt grunninn að því að Chelsea fái dæma vítaspyrnu þegar mest liggur við," sagði Nolan, sem sjálfur er tæpur vegna meiðsla fyrir leikinn á Stamford Bridge á morgun.

„Fólk gæti stundum haldið að hann væri búinn að fara yfir strikið, eða að hann væri að missa tökin á starfinu, en ég hef ekki minnstu trú á því. Mourinho er frábær knattspyrnustjóri," sagði Kevin Nolan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert