West Ham vann í dag gríðarlega mikilvægan sigur í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið skellti Wigan, 0:3, á JJB Stadium í Wigan. Hermann Hreiðarsson og félagar hans í Charlton steinlágu á sama tíma fyrir Blackburn, 4:1, og þar með höfðu West Ham og Charlton sætaskipti.
Luis Boa Morte, Benayoun og Marlon Herewood skoruðu mörkin fyrir West Ham sem hefur 35 stig og er í þriðja neðsta sæti með jafnmörg stig og Wigan sem er ofar þar sem liðið hefur betri markatölu.
Blackburn burstaði Charlton, 4:1, og þar með stendur Charlton illa í næst neðsta sæti deildarinnar. Jason Roberts skoraði tvö marka Blackburn, Derbyshire skoraði eitt og Hermann Hreiðarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Darren Bent skoraði mark Charlton sem lék manni færri frá 63. mínútu þegar Ben Thatcher var vikið af velli.
Portsmouth vann góðan 2:1 sigur á varaliði Liverpool. Benjani Mwaruwari og Niko Kranjcar komu Portsmouth í 2:0 í fyrri hálfleik en Sami Hyypia svaraði fyrir Liverpool.
Tottenham fagnaði 2:3 sigri gegn Middlesbrouh á Riverside. Robbie Keane skoraði tvö marka Tottenham og Dimitar Berbatov eitt en þeir Mark Viduka og Pogatetz skoruðu mörk heimamanna.
Sheffield United fór langt með að bjarga sér frá falli með því að sigra Watford, 1:0. Michael Tonge skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.
Á Manchester Stadium hafði Aston Villa betur gegn Manchester City, 0:2. John Carew og Shaun Maloney gerðu mörkin fyrir Villa.