Aðgerðin á Ballack var óumflýjanleg

Michael Ballack leikur væntanlega ekki meira með Chelsea á leiktíðinni.
Michael Ballack leikur væntanlega ekki meira með Chelsea á leiktíðinni. Reuters

Þýska knattspyrnusambandið og Chelsea eru komin í hár saman vegna aðgerðar á ökkla sem þýski landsliðsfyrirliðinn Michael Ballack gekkst undir á í Þýskalandi í síðustu viku. Ólíklegt er að Ballack leiki meira með Chelsea á leiktíðinni en hann gæti verið klár í slaginn með þýska landsliðinu þegar það mætir San Marínó og Slóvakíu í undankeppni EM í næsta mánuði.

Chelsea segir að aðgerðin hafi verið óþörf en þýska knattspyrnusambandið segir að aðgerðin hafi verið óumflýjanleg. Ballack meiddist á ökklanum í leik Chelsea og Newcastle þann 22. apríl og veitti Chelsea Ballack leyfi til að fara í skoðun hjá lækni í Þýskalandi. Eftir þá skoðun fór hann undir hnífinn hjá lækni þýska landsliðsins.

,,Læknir okkar upplýsi eftir greiningu á ökklanum að Ballack þyrfti að fara í aðgerð þegar í stað. Það þurfti að spelka bein í ökklanum og ef það hefði ekki verið gert strax hefði verið hætta á frekari skemmdum í ökklanum," sagði talsmaður þýska knattspyrnusambandsins.

,,Þeir sem segja að aðgerðin hafi verið framkvæmd með tilliti til leikjannna með þýska landsliðinu hljóta að vera fíflast. Nefnið mér einn leikmann í veröldinni sem myndi taka áhættu að spila ekki bikarúrslitaleik á móti Manchester United eða taka ekki þátt í undanúrslitaleik á móti Liverpool vegna leiks á móti San Marínó., Ég get svo svarið að ég fór ekki í þessa aðgerð að gamni mínu," segir Ballack.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert